Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: FH - KR 0-1 | Tobias tryggði KR stigin þrjú | Sjáðu markið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
KR er komið í þriðja sæti Pepsi deildar karla eftir afar sterkan 0-1 sigur á FH í Kaplakrika í dag. Tobias Thomsen skoraði sigurmark KR á 67. mínútu.

Það dróg ekki mikið til tíðinda í fyrri hálfleik. Bæði lið áttu nokkur góð færi, en heilt yfir einkenndist leikurinn af baráttu og mikilvægi leiksins var augljóst á frammistöðunni.

Í seinni hálfleik mættu KR-ingar sterkari til leiks og voru mun hættulegri í sínum aðgerðum, þó að leikmenn FH kæmu sér í ágætis stöður inn á milli.

Mistök hjá Þórarni Inga Valdimarssyni í vörn FH leiddu til þess að Skúli Jón Friðgeirsson náði að koma boltanum á Morten Beck sem átti fína fyrirgjöf inn í teig. Þar var Tobias Thomsen mættur og setti boltann viðstöðulaust í marknetið og skoraði sigurmarkið fyrir KR.

FH-ingar vöknuðu til lífsins undir lok leiksins og sóttu stíft, en allt kom fyrir ekki og fóru KR-ingar með gríðarlega mikilvæg þrjú stig heim í Vesturbæinn.

Afhverju vann KR?

Þeir gáfu FH-ingum ekki mikinn séns á sér, voru virkilega öruggir í flest öllum sínum varnaraðgerðum. Þeir unnu vel sem lið og voru oft á tíðum mjög hættulegir í sínum sóknum. Sigurmarkið kom svo upp úr fínu samspili og var nokkuð verðskuldað miðað við frammistöðuna.

Hverjir stóðu upp úr?

Útlendingarnir þrír í framlínu KR, Thomsen, Kennie Chopart, og Andre Bjerregaard voru allir mjög duglegir og komu sér oft á tíðum í góð færi. Fyrirliðinn Pálmi Rafn Pálmason og Finnur Orri Margeirsson áttu einnig fínan leik í dag.

Hjá FH var Steven Lennon duglegur að vanda og var hvað helst ógnandi fram á við fyrir FH. Nýi maðurinn Matija Dvornekovic átti einnig fínan leik.

Hvað gekk illa?

Varnarlína FH virkaði ekki mjög örugg og var nokkuð um misheppnaðar sendingar og rangar ákvarðanir þar. Það var mikið um skörð í varnarlínunni og það sást hér í dag að menn voru ekki að spila sínar bestu stöður.

Hvað gerist næst?

KR-ingar fá Vestmanneyinga í heimsókn í Frostaskjólið laugardaginn 9. september. ÍBV eru í mikilli fallbaráttu og munu þurfa stig úr þeim leik.

FH tekur á móti Grindavík, en liðin eru jöfn að stigum í fjórða og fimmta sæti deildarinnar og því um mikilvægan leik í Evrópubaráttunni að ræða.

Maður leiksins: Tobias Thomsen, KR

Einkunnir allra leikmanna má finna undir „Liðin“ hér að ofan

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR.Vísir/Eyþór
Willum Þór: Sjaldgæft að ná svona heilsteyptum 90 mínútum

„Ég er sáttur með stigin og sérstaklega frammistöðuna. Það er mjög sjaldgæft að ná svona heilsteyptum 90 mínútum, ég tala nú ekki um á móti jafn frábæru liði og FH,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR eftir sigur sinna manna.

„Menn náðu að vinna sem einn maður og við náðum góðri pressu á FH-liðið sem hélt allan tímann. Við vorum fínir á boltann þegar við náðum í hann og sköpuðum okkur fullt af færum.“

„Eitt mark dugði í dag vegna þess að vinnusemin í liðinu var frábær,“ sagði Willum.

Eftir bikarsigur ÍBV eru það aðeins þrjú efstu liðin í deildinni sem fá Evrópuleiki næsta tímabil, og má búast við að KR-ingar ætli ekki að sleppa því svo glatt.

„Við fáum að vera þar í eina viku og svo heldur bardaginn áfram.“

„Það er rosalega fin staða á hópnum, fínt form, svo við hlökkum til að taka lokasprettinn í þessu móti,“ sagði Willum Þór.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.Vísir/Ernir
Heimir: Var lag á að vinna KR

Þjálfari FH, Heimir Guðjónsson, var að vonum ekki sáttur með úrslit kvöldsins. „Við erum aldrei sáttir með tap á heimavelli. Mér fannst fyrri hálfleikurinn allt í lagi, seinni hálfleikurinn var ekki góður af okkar hálfu nema kannski síðustu 10 mínúturnar.“

„Ég held við höfum spilað boltanum meira á markmanninn í þessum seinni hálfleik heldur en við erum búnir að gera í allt sumar, þannig að seinni hálfleikurinn var ekki góður.“

„Þeir voru ekki með mörg færi í þessum leik. Við gleymdum okkur í dekkingunni og þeir skoruðu eitt mark. Við náðum ekki að ógna þeim nógu mikið,“ sagði Heimir, aðspurður hvað réði úrslitum í kvöld.

Heimir neyddist til að gera fjórar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn, en vildi ekki kenna því um úrslitin.

„Mér fannst byrjunarliðið sterkt. Auðvitað voru einhverjir meiddir, en það er bara eins og gengur og gerist í fótbolta.“ Heimir sagði þó að allir ættu að vera orðnir heilir þegar deildin fer aftur af stað eftir rúma viku.

„Ef það var einhvern tímann lag að vinna KR, þá var möguleiki á því í kvöld. Ekkert gengið neitt sérstaklega með þá síðustu ár,“ sagði Heimir að lokum.

Pálmi Rafn Pálmason átti góðan leik.vísir/anton
Pálmi Rafn: Sanngjarnt 1-0

„Léttir og gleði og gaman,“ voru fyrstu viðbrögð Pálma Rafns Pálmasonar, fyrirliða KR, eftir sigurinn í kvöld. „Við börðumst virkilega vel, allir sem einn, og hleyptum þeim ekki nálægt markinu okkar, allavega ekki oft.“

„Vorum að skapa okkur ágætis færi, og ætli þetta hafi ekki bara verið sanngjarnt 1-0.“

KR-ingar vissu að þeir væru að fara í gríðarlega erfiðan leik, en Pálmi sagðist hafa haft trú á að sínir menn gætu farið með sigur af hólmi.

„Við eigum alltaf von á að geta labbað burt með þrjú stig. Okkur hefur liðið vel hérna síðustu árin og við höfðum alltaf trú á því að geta unnið þennan leik þó að FH-liðið sé gríðarlega sterkt.“

Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Kaplakrika í kvöld og tók meðfylgjandi myndir.

vísir/eyþór

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira